Pýþagóras (dáinn um 497 fyrir Krist)

Pýþagóras var grískur heimspekingur og dulspekingur. Hann og fylgismenn hans virðast hafa verið einna fyrstir manna til að líta á stærðfræði sem sjálfstætt viðfangsefni en ekki bara safn af hentugum formúlum. Við Pýþagóras er kennd ein kunnasta reglan í rúmfræði, um hlutföll hliða í rétthyrndum þríhyrningi. Önnur uppgötvun sem honum er eignuð er skipting tónstigans í áttundir.

Pýþagóras og fylgismenn hans lögðu m.a. stund á talnaspeki og töldu að heilar tölur og hlutföll þeirra væru lykillinn að leyndardómum alheimsins. Öllum stoðum undir þessari kenningu var kippt burt með uppgötvun óræðra talna.