XML staðallinn hefur hlotið tiltölulega mikla útbreiðslu, einkum á sérhæfðum sviðum eins og vísindum og tækni, þar sem flytja þarf mikið magn af flóknum upplýsingum milli ólíkra tölvukerfa. Upplýsingar sem skráðar eru með XML er hægt að tengja við ýmiskonar stílsíður og stjórna þannig hvernig þær birtast, en sú notkun hefur enn ekki náð mikilli útbreiðslu.
Nýjasta útgáfa HTML á uppruna sinn í XML staðlinum og nefnist XHTML. Eitt helsta markmiðið með þeim staðli er að skilja aftur í sundur lýsingu og framsetningu til þess að gera kleift að birta sömu vefsíðuna í jafn ólíkum miðlum og farsíma, sjónvarpi, sölukassa og tölvuskjá. Lýsingin er gerð í formfastri XML útgáfu af HTML, en framsetningunni er lýst með stílsíðum.
Ekki er ástæða til að segja meira um þróun vefsíðustaðla hér, en einskonar staðlaráð veraldarvefsins heldur úti vefsetri (http://www.w3c.org) þar sem þróun vefsins fer fram og nýir staðlar líta dagsins ljós. Kíktu þangað!