Þessum vef er ætlað að vera í senn stutt kynning á HTML, JavaScript, Perl og CGI og um leið sýnidæmi um notkun þessara þátta til að búa til virkar vefsíður, bæði í vefsjá og hjá vefþjóni. Til þess að ná einhverjum tökum á efninu verður hinn upprennandi vefforritari þó óhjákvæmilega að gera tvennt: lesa mikið af leiðbeiningum og skrifa mikið af vefsíðum. Forritun lærist eingöngu með því að hafa þolinmæði til að klóra sig fram úr vandræðum. Því fylgja þessum vef nokkrar ábendingar um lesefni, en að auki eru gífurlega miklar upplýsingar aðgengilegar á vefnum.
Til þess að setja upp á tölvu þróunarumhverfi af því tagi sem hér er lýst þarf þar að vera forritunarmálið Perl, vefþjónn sem veitir CGI þjónustu, sæmilega þægilegur ritill til að skrifa Perl forrit og HTML ritill. Perl er ókeypis og á vefsíðunum um uppsetningu ritils og vefþjóns er bent á ágæt ókeypis forrit. Vilji menn nota önnur forrit ættu leiðbeiningarnar samt að hjálpa til að benda á þau atriði sem þarf að huga að við uppsetningu slíkra forrita. Til þess að finna forrit af þessu tagi hefur mér gefist best að leita á TUCOWS forritasafninu. Annað slíkt safn er NONAGS.