Forritun vefsíðna með HTML

Vefsíður eru skrifaðar í forritunarmáli sem nefnist HyperText Markup Language eða HTML. Þetta er mjög sérhæft forritunarmál og upphaflega bauð það nánast eingöngu uppá tvennt: Lýsingu á texta (málsgreinar, fyrirsagnir, listar, o.sv.frv.) og krækjur sem tengja vefsíður.

Þegar veraldarvefurinn (WorldWideWeb) sló í gegn var útgáfa 2.0 af HTML mest notuð. Í henni var lögð áhersla á að skilja í sundur lýsingu og framsetningu; notandinn átti t.d. að merkja texta sem fyrirsögn, en vefsjáin átti að ráða framsetningunni. Þessi staðall telst nú úreltur.

Fljótlega fóru notendur að krefjast fleiri möguleika og í næstu opinberu útgáfu málsins, HTML 3.2 (sem líka gengur undir nafninu Wilbur), var boðið upp á töflur, stílsíður, Java applet og fleira, en þó reynt að halda eftir megni í hið upprunalega markmið um lýsingu óháð framsetningu. Þetta er sú útgáfa af HTML sem flestar vefsjár styðja og bæði Microsoft og Netscape vefsjárnar birta með sama hætti.

Skömmu eftir útkomu HTML 3.2 kom annar staðall, HTML 4.0, sem líka er nefndur Dynamic HTML eða DHTML. Þar er stefnunni kúvent: notandinn ræður flestu um útlit vefsíðunna og hegðun vefsíðu er hægt að stjórna með vefsíðuforritum (t.d. JavaScript). Því miður hefur ekki orðið jafn gott samkomulag um þennan staðal og fyrirrennara hans, en Microsoft hefur fylgt honum einna best. Næsta útgáfa af HTML er í undirbúningu og nefnist XHTML.

Ótal bækur og enn fleiri vefsíður eru á boðstólum fyrir þá sem vilja læra HTML málið. Fornfræg vefsíða er A Beginner's Guide to HTML sem skrifuð var á upphafsdögum vefsins, en er hér í uppfærðri útgáfu fyrir HTML 4.0.