Flest af því sem fjallað er um á þessu námskeiði er hægt að gera með Wilbur og það er sú grundvallar útgáfa af HTML sem allir vefarar þurfa að kunna til hlítar. Hér er stutt íslenskt yfirlit um helstu HTML skipanir og enskar síður með ítarlegri skýringum. Íslenska yfirlitið vísar í ensku síðurnar.
Samkvæmt Wilbur staðlinum er hægt að fela sérstök forrit á vefsíðum og láta þau stjórna ákveðinni virkni þar. Upphaflega voru þessi forrit eingöngu skrifuð í forritunarmálinu JavaScript frá Netscape en nú er hægt að nota ýmis fleiri mál eins og VisualBasic, PerlScript o.fl. Enn er þó Javascript það tungumál sem flestar vefsjár styðja. Það er mikilvægt að átta sig á því að JavaScript er ekki hluti af HTML, heldur leyfir Wilbur staðallinn einfaldlega að forrit séu falin á vefsíðum, annist ákveðin samskipti við notandann og hafi áhrif á hegðun vefsjárinnar.
Samkvæmt Wilbur staðlinum geta JavaScript forrit lesið þau gögn sem FORM á vefsíðunni kunna að innihalda og breytt þeim. Annað innihald vefsíðunnar getur forritið ekki haft nein áhrif á (nema með því að endurskrifa alla vefsíðuna). Í næstu útgáfu HTML var þessi takmörkun að mestu afnumin.